Fara í efni

Fylltar ofnbakaðar tortillarúllur frá Eldhúsperlum

Alveg upplagt að elda þessar rúllur um helgina.
Fylltar ofnbakaðar tortillarúllur frá Eldhúsperlum

Mig langar að deila með ykkur mikilli uppáhaldsuppskrift sem er í senn einföld og sérstaklega góð.

Þessar rúllur hafa fylgt mér lengi og þróast aðeins með árunum þó að vissulega séu nú engin geimvísindi á bakvið þær.

Mér þykir þetta upplagður föstudags- eða laugardagsmatur þegar alla langar í eitthvað gott að borða og vilja gera vel við sig án mikillar fyrirhafnar.

Fylltar ofnbakaðar tortillarúllur (fyrir 4):

  • 500-600 gr hreint ungnautahakk (einn góður bakki)
  • 1 krukka salsa sósa (ég nota milda)
  • 1-2 dl vatn
  • Krydd t.d reykt paprika, cumin, hvítlauksduft og Krydd lífsins
  • Ferskt kóríander (má sleppa)
  • 1 dós 18% sýrður rjómi
  • 1 lítil dós hreinn rjómaostur
  • 6 heilhveiti tortilla kökur (minni gerðin)
  • 1 poki rifinn ostur (t.d pizzaostur)
  • 1 box piccolo tómatar skornir í fernt
  • 5 vorlaukar saxaðir smátt
  • 1 rauð paprika smátt söxuð
  • 2 avocado skorin í sneiðar

Aðferð: Hitið ofninn í 200 gráður. Byrjið á að saxa niður grænmetið.

Steikið kjötið svo vel og kryddið það eftir smekk.

Þegar kjötið er brúnað hellið salsasósunni yfir ásamt vatni og leyfið þessu að sjóða í ca. 5 mínútur.

Takið þá af hitanum og bætið smá söxuðu kóríander saman við.

Leggið tortillaköku fyrir framan ykkur. Smyrjið á hana 1 msk af rjómaosti.

Setjið því næst 1/6 af hakkinu ofaná ásamt ca. matskeið af rifnum osti.

Rúllið kökunni upp og leggið í eldfast mót.

Endurtakið þar til allar kökurnar eru fylltar.

Setjið sýrðan rjóma hér og þar yfir kökurnar.

Stráið því næst söxuðu grænmetinu yfir og restinni af rifna ostinum.

Bakið við 200 gráður í 15 mínútur. Berið fram með avocadosneiðum og brosi á vör.

ELDHÚSPERLUR.