Fara í efni

Engifer

Engifer er hitabeltisjurt (e. ginger; lat. Zingiber officinale) og þeir jurtahlutar sem eru notaðir eru jarðstönglar (rhizome). Engifer er notað sem krydd og í fæðubótarefni. Um helmingur heimsframleiðslunnar kemur frá Kína og Indlandi.
Ginger rót
Ginger rót

Engifer er hitabeltisjurt (e. ginger; lat. Zingiber officinale) og þeir jurtahlutar sem eru notaðir eru jarðstönglar (rhizome). Engifer er notað sem krydd og í fæðubótarefni. Um helmingur heimsframleiðslunnar kemur frá Kína og Indlandi.

Þekktar eru nokkrar olíur (shogaol og gingerol) og fleiri efni í engiferi en ekki er vitað með vissu hver þessara efna eru virk í líkamanum.

Verkanir

Talið er líklegt að engifer geri gagn við ógleði og uppköstum eftir skurðaðgerðir og við morgunógleði á meðgöngu. Þetta þarf þó að staðfesta betur. Ekki hefur verið sýnt fram á verkun við ferðaveiki (sjóveiki, bílveiki, flugveiki).

Engifer hefur einnig verið notað við gigt, ógleði við krabbameinsmeðferð, lystarleysi, kvefi, flensu og mígreni. Ekki er hægt að meta gagnsemi engifers við þessum kvillum og sjúkdómum vegna skorts á rannsóknum. Engiferi eru stundum eignaðar enn fleiri verkanir við ýmsum sjúkdómum eða óþægindum sem engar heimildir styðja.

Verkunarháttur

Engifer örvar munnvatnsmyndun og hreyfingar meltingarfæranna og getur sennilega á þann hátt slegið á ógleði og uppköst af sumum orsökum. Ekki er vitað hvaða efni í engiferi hafa þessa virkni í líkamanum.

Öryggi

Engifer er talið hættulaust fyrir flest fólk. Þekktar aukaverkanir eru vindgangur, ógleði, brjóstsviði, niðurgangur og meltingarónot.

Sérstakir hópar - meðganga

Öryggi engifers á meðgöngu er umdeilt en rannsóknir benda til þess að nota megi skammta allt að 1 g/dag við morgunógleði án teljandi hættu fyrir fóstrið.

Milliverkanir við lyf eða annað

Þeir sem nota segavarnalyf (blóðþynningarlyf) eða lyf við sykursýki eða háum blóðþrýstingi ættu að ræða það við lækni áður en engifer er notað sem fæðubótarefni. Sama má segja um önnur fæðubótarefni sem hafa blóðþynnandi verkun en þar má nefna hvönn, negul, hvítlauk, ginkgo og ginseng.

Skammtar

Þegar talað er um skammta er miðað við þurrkaða jarðstöngla. Í flestum rannsóknum hafa verið notaðir skammtar á bilinu 0,5 – 1,5 g/dag. Flest bendir til að skammtar undir einu grammi á dag séu meinlausir en um stærri skammta er ekki hægt að fullyrða.

Heimildir og ítarefni

Upplýsingar hafa verið sóttar í talsverðan fjölda birtra heimilda. Dæmi um aðgengilegt efni:
1. http://www.nlm.nih.gov/medlineplus/druginfo/natural/961.html
2. http://www.mskcc.org/cancer-care/herb/ginger

Magnús Jóhannsson læknir 
magjoh@hi.is

Þessi pistill er eign höfundar og má hvorki afrita hann né nota efni hans án leyfis.