Fara í efni

Ég hef aldrei gert mistök - hugleiðing Guðna á sunnudegi

Ég hef aldrei gert mistök - hugleiðing Guðna á sunnudegi

ÉG HEF ALDREI GERT MISTÖK

Það er aðeins orsök og afleiðing. Ég hef aldrei gert mistök. Það sem ég hef gert, það hef ég gert. Stundum hefur það valdið óróa og sársauka í kringum mig. Ég hef aldrei gert það af illum hug. Og hér er ég, afleiðing allra minna gjörða, og ég vel að elska allt sem ég hef gert því ég vil líta á líf mitt, núna, sem blessun. Ég er ekki mistök – ég er blessun.

Allt er eins og það á að vera. Við þurfum ekki að refsa öðrum – allir fá alltaf borgað í sinni mynt og sínum gjaldeyri; í því formi sem þeir sækjast sjálfir eftir. Að taka ekki ábyrgð á eigin orku er að afneita eigin tilvist og neita sér um að lifa til fulls.

Ef þú vilt sannarlega létta álögunum af þér þá er fyrirgefningin eina leiðin út úr þeim. Að fyrirgefa þýðir að hafa melt fullkomlega og unnið úr atburði eða uppákomu, melt hana fullkomlega á þann hátt að uppákoman hafi verið óhjákvæmileg og alveg eins og hún átti að vera (jafnvel þótt hún hafi valdið sársauka).

Að fyrirgefa þýðir að sleppa inn í andartakið. Með því hverfur öll forsagan, sem við notum oft til að valda okkur gremju. Þá hverfa allar framtíðarvonirnar sem við notum til að koma í veg fyrir að við njótum augnabliksins.

Við þurfum að anda að okkur – annars deyjum við. En við þurfum ekki að anda frá okkur. Það gerist af sjálfu sér, ef við bara sleppum. Það sama gildir um fyrir- gefninguna. Ef við göngumst inn á þá hugmynd að fruman sé eins og kamína þá er fyrirgefningin rýmið.

Forsendan fyrir rými í kamínunni er losun. Fyrirgefningin er eins og að fara út með ruslið. Maður þarf að gera það mjög reglulega, stundum á hverjum degi. Það sama gildir um klósettferðir, því að líkaminn er alltaf að framleiða úrgang. Fyrirgefningin er stórkostlegt og risastórt tækifæri – ekki aðeins vegna þess að við búum til rými og tækifæri til umbreytingar, ekki aðeins vegna þess að með rýminu kemur meiri sprengikraftur og heitari eldur, heldur vegna þess að með því að fyrirgefa erum við líka að segjast vera tilbúin að elska, tilbúin til að hætta að nota eftirsjá og iðrun til að refsa okkur og fjötra. Fyrirgefningin er ástarjátning til okkar sjálfra.