Fara í efni

Borðaðu meðvitað

Ætli við þekkjum það ekki flest að borða matinn okkar og muna svo varla hvernig hann var á bragðið.
Að borða meðvitað
Að borða meðvitað

Ætli við þekkjum það ekki flest að borða matinn okkar og muna svo varla hvernig hann var á bragðið.

Það er allt of algengt að fólk borði matinn sinn of hratt, eiginlega ómeðvitað. Við flýtum okkur að borða þar sem við erum svo svöng og erum því búin að troða næsta bita upp í okkur áður en við erum búin að kyngja þeim sem fyrir var. Með því að borða svona hratt eru mun meiri líkur á því að við borðum okkur allt of södd. Við fáum okkur aftur á diskinn og finnum svo eftir máltíðina að við hefðum átt að sleppa seinni disknum.

Það tekur  líkamann nokkrar mínútur að láta okkur vita að við séum í raun orðin södd og hann nær ekki að gera það þegar við borðum of hratt. Því er miklu betra að taka tíma í að borða og gefa maganum tækifæri á að láta okkur vita hvenær við erum í raun búin að fá nóg. 

Hvernig borðum við meðvitað?

•    Taktu þér að minnsta kosti 20 mínútur í máltíðina. 
•    Prófaðu að setja ekki næsta bita upp í þig fyrr en þú ert búin að kyngja þeim fyrri.
•    Leggðu frá þér hnífapörin í máltíðinni og slakaðu á – maturinn fer ekkert frá þér.
•    Ef þig langar í meira eftir að hafa borðað einn disk, bíddu þá í 10 mínútur og sjáðu hvernig þér líður þá. Líklega munt þú þá finna að þú ert búin(n) að fá nóg.

Með því að borða hægar nýtur þú betur matarins og meiri líkur eru á að þú borðir það magn sem nægir þér.

Höf,
Alma María Rögnvaldsdóttir 
Hjúkrunarfræðingur

Heimild: islenskt.is