Fara í efni

Alþjóðlegi sjálfsvígsforvarnardagurinn 10.september

Á ári hverju eru um 40 manns sem falla fyrir eigin hendi og 500 til 600 sem reyna. Mikið hefur verið rætt um bráðageðdeild Landspítalans og hvað sé hægt að gera í sjálfsvígs forvörnum.
Alþjóðlegi sjálfsvígsforvarnardagurinn 10.september

Á ári hverju eru um 40 manns sem falla fyrir eigin hendi og 500 til 600 sem reyna.

Mikið hefur verið rætt um bráðageðdeild Landspítalans og hvað sé hægt að gera í sjálfsvígs forvörnum.

Geðhjálp og Rauði Krossinn byrjuðu fyrir 2 árum með átakið Útmeða sem beindist að sjálfsskaða og sjálfsvígum ungra karlmanna en sjálfsvíg eru algengasta dánarorsök ungra karlmanna á aldrinum 18 til 25 ára. Það eru 4 til 6 sem falla fyrir eigin hendi á aldrinum 18 til 25 á hverju ári og það er ljóst að meiri pening vantar þar í forvarnir eins og er gert með umferðaforvarnir sem hefur bjargað mannslífum. Það er þakkarvert framtakið hjá Geðhjálp og Rauða Krossinum og öll umræða að bættum forvörnum af því góða til að fólk geti talað um sína vanlíðan og mikilvægt er vita hvert getur verið hægt að leita.

Pieta

Nú hafa Pieta sjálfsvígsforvarnarsamtökin bæst við en þau voru stofnuð fyrir 11 árum í Írlandi og héldum við göngu hér á Akureyri í fyrsta skipti í vor en var byrjað í Reykjavík vorið 2016. Grófin geðverndarmiðstöð tók þátt í að undirbúa ásamt aðstandendum og fleiru góðu fólki. Var falleg og góð stemming og mikið þakklæti að geta minnst ástvina á táknrænan hátt og um leið vekja athygli á Pieta sjálfsvígsforvarnarsamtökum en hundrað manns gengu gegn sjálfsvígum og inn í morguninn með Pietasamtökunum á Akureyri  en yfirskrift göngunnar er „Úr myrkrinu í ljósið“. Var gengið á fleirum stöðum á landsbyggðini en það vill stundum gleymast að hafa umræðu um landsbyggðina líka þar sem minni sveitarfélög og mikil þöggun sem þarf að rjúfa með meiri forvörnum.

Ég tel að Pieta geti haft mikil áhrif ef við getum stutt vel við og sameinast um að koma á í hverjum landsfjórðungi upp húsi þar sem fagmenn vinna og skilst mér að fyrsta húsið muni taka til starfa árið 2018. Pieta Ísland, samastendur af fulltrúum frá Hugarafli, Lifa-landssamtökum aðstandenda eftir sjálfsvíg og fleiri einstaklingum. Samtökin hafa í hyggju að stofna Pieta hús á Íslandi til mæta þeirri miklu þörf í samfélaginu fyrir úrræði fyrir fólk í sjálfsvígshættu og með sjálfsskaða. Í Pieta House á Írlandi vinnur fagfólk sem búið er að fá sérstaka þjálfun í meðhöndlun fólks í sjálfsvígshættu og með sjálfsskaða og hefur þessi aðferð gefið góðan árangur. Þúsundur Íra leita sér árlega hjálpar hjá Pieta House, sem er víðs vegar um landið og hefur sjálfsvígstilfellum fækkað töluvert í landinu síðastliðin 10 ár. Pieta House í Írlandi er opið 6 daga vikunnar, virka daga til kl 21 á kvöldin og hægt er að fá viðtal við ráðgjafa innan 24 klukkustunda frá því að hringt er, sé þess óskað. Hver og einn mun fá 15 viðtöl með sínum ráðgjafa, endurgjaldslaust og eftirfylgni er eftir að viðtölum lýkur. Fólk getur alltaf leitað aftur til Pieta House og þjónustan er öllum opin, ókeypis.

Sjálfsvígshugsanir mínar og lífsleikni í skólum landsins

Ég tel að við getum unnið betur með lífsleikni í skólum landsins með tilfinningar og sjálfsmyndina. Mikilvægi þess að birgja ekki vanlíðan inni og sé hægt að tala um án þess að vera dæmdur eða lítið gert úr. Hjálpa börnum og ungmennum að takast á við erfileika og vinna með virðingu að leiðarljósi getum við komist hjá miklum afleiðingum eins og sjálfsvíg eru. Forvarnir felast líka í því að fá fagfólk í skóla landsins til að vinna með sjálfsmyndina. Frá tólf ára aldri höfðu sjálfsvígshugsanir herjað á mig daglega en er þakklátur að hafa lifað af og séð hvað ég hafði glímt við síðan ég var barn árið 2005. Mínar sjálfsvígshugsanir höfðu stafað út frá geðröskunum kvíða, félagsfælni og þunglyndi sem mörg börn glíma við í skólum landsins og þurfa hjálp við strax. Fyrir mig var það mikil uppgvötun að sjá að þetta voru geðraskanir sem höfðu stjórnað mínum vanmætti í lífinu sem hægt væri að vinna með og það væri von í vonleysinu. Síðan hef ég nýtt mér hjálpina og öðlast líf í stað þess að hafa sjálfsvígshugsanir flest alla daga og nota vímuefni eða einangrast félagslega. Hvert mannslíf á að skipta máli og er mikilvægt að stjórnvöld og samfélagið standi betur saman að bættum forvörnum fyrir lífið!

Höfundur greinar:

Eymundur L. Eymundsson, félagsliði,ráðgjafi og stjórnarmeðlimur í Grófinni geðverndarmiðstöð á Akureyri