Fara í efni

Af hverju stafar brjósklos og hvaða einkenni fylgja því?

Hryggsúlan er sett saman úr 26 smábeinum sem kallast hryggjarliðir og brjóskþófum sem tengja beinin saman. Þessir þættir raðast upp í súlu sem umlykur mænuna og styður við efri hluta líkamans.
Brjósklos
Brjósklos

Hryggsúlan er sett saman úr 26 smábeinum sem kallast hryggjarliðir og brjóskþófum sem tengja beinin saman.

Þessir þættir raðast upp í súlu sem umlykur mænuna og styður við efri hluta líkamans. Hryggnum er gjarnan skipt í eftirtalda hluta:

  • hálshluta, sem samanstendur af 7 hálsliðum
  • brjósthluta, sem myndaður er af 12 brjóstliðum og tengjast rifbeinin þeim
  • lendarhluta, sem er myndaður af 5 lendarliðum og eru þeir stærstir af hryggjarliðunum
  • spjaldhrygg, sem er flatt þríhyrningslaga beini sem tengir hryggsúluna við mjaðmagrindina
  • rófubein, sem er neðst, 2–4 lítil bein sem eru samvaxin að hluta

Brjóskþófarnir sem tengja saman hryggjarliðina eru samsettir úr bandvefshring sem liggur umhverfis hlaupkenndan kjarna. Brjóskþófinn er 80% vatn sem gerir hann mjög teygjanlegan og eykur það á hreyfigetu hryggjarins og styður einnig við hann. Á hryggjarliðina og hliðar brjóskþófanna festast svo þeir vöðvar sem taka þátt í hreyfingum hryggsúlunnar og gera okkur kleift að beygja okkur og snúa.

Mænan nær frá heilastofni (neðsta hluta heilans), um beingöng sem hryggjarliðirnir mynda og niður að fyrsta eða öðrum lendarlið þar sem hún greinist í knippi sem kallast mænutagl (cauda equina). Frá mænunni liggja taugarætur út úr beingöngunum og tengja þannig heilann við aðra hluta líkamans.

Brjósklos kallast það þegar kjarninn í brjóskþófunum, sem liggja milli hryggjarliðanna, þrýstir á bandvefshringinn og veldur því að hann bungar út eða rifnar og þrýstingur verður á aðliggjandi taugarætur. Í sumum tilfellum er ekki nein þekkt ástæða fyrir því að kjarninn fer að bunga út, en hrörnun sem verður á bandvefnum með aldrinum getur orsakað þetta. Einnig getur brjósklos orðið við áreynslu svo sem líkamlega vinnu eða slys. Það veldur þó ekki alltaf einkennum þó brjóskþófinn bungi út því rannsóknir hafa sýnt að fjölmargir einstaklingar hafa útbunganir á brjóskþófunum án þess að nein einkenni fylgi.

Einkennin sem fylgja brjósklosi eru aðallega vegna þrýstings á taugaenda. Slíkt getur falið í sér að máttur einstakra vöðva minnkar eða þeir lamast. Einnig geta fylgt verkir sem leiða út í handlegg eða fætur og/eða skyntruflanir í höndum eða fótum. Þrýstingur á mænu getur líka orsakað einkenni. Þau eru krampar og/eða lömun og skyntruflanir í þeim hluta líkamans sem taugarnar sem verða fyrir þrýstingnum liggja til. Loks má nefna einkenni vegna þrýstings á mænutagl en þau geta verið truflanir á þvaglátum og/eða skyntruflanir við endaþarm og innan á lærum og/eða minnkandi máttur eða lömun á báðum fótum.

Brjósklos verður oftast í lendarhrygg (mjóbaki) og er það algengt hjá einstaklingum á aldrinum 30-50 ára. Brjósklos í hálsliðshlutanum er sjaldgæfara og brjósklos í brjósthlutanum er sjaldgæft.

Ýmsir þættir auka á hættuna á brjósklosi. Til dæmis eru þeir sem vinna við að lyfta þungu hlassi, snúa sér og beygja við vinnu, þannig að aukið álag verður á bakið, í meiri hættu. Það sama á við um þá sem vinna við langkeyrslur. Einstaklingar sem eru í lélegu líkamlegu ástandi eru í meiri hættu og sérstaklega ef þeir taka sér fyrir hendur störf þar sem álag verður á bakið. Slæmt líkamlegt ástand og stífir bakvöðvar gera það að verkum að hreyfingar hryggsúlunnar verða takmarkaðar og slappir magavöðvar valda því að staða mjaðmagrindarinnar breytist og aukið álag verður á mjóbakið. Offita eykur svo enn frekar líkurnar á að brjósklos myndist. Loks má geta þess að rangar líkamsæfingar geta valdið brjósklosi og því er mikilvægt að gera allar æfingar rétt þegar líkamsþjálfun er stunduð.

Heimild: visindavefur.is