Fara í efni

VIÐTALIÐ: Margrét stundar bogfimi af ástríðu – viltu kynna þér bogfimi ?

Flott viðtal við Margréti sem stundar bogfimi af ástríðu og okkur á Heilsutorgi langar að kynna þessa íþrótt fyrir ykkur lesendur góðir.
VIÐTALIÐ: Margrét stundar bogfimi af ástríðu – viltu kynna þér bogfimi ?

Flott viðtal við Margréti sem stundar bogfimi af ástríðu og okkur á Heilsutorgi langar að kynna þessa íþrótt fyrir ykkur lesendur góðir.

 

Fullt nafn:  Margrét Einarsdóttir

Segðu okkur aðeins frá sjálfri þér og hvaðan ertu ?

Úff.. Sko..Ég er fædd og uppalin að mestu í Breiðholtinu. Ég bjó í smá tíma í Portúgal þar sem ég eignaðist nýtt tungumál.
Ég á 3 börn, 22. ára gæja, 15 ára dömu og 6 ára skvísu. Öll tölum við íslensku, ensku og portúgölsku. Ég stunda bogfimi og hestamennsku. Ég er formaður bogfiminefndar ÍSÍ þar sem við stefnum á að verða samband á næstu mánuðum.

Menntun og við hvað starfar þú í dag ?

Ég er menntuð sem leikskólaliði, aðstoðarmanneskja dýralæknis, Þjálfari í bogfimi og er að stunda nám í FB að taka sjúkraliðann með íþróttafræðilegu ívafi. Ég starfa sem samfélagstúlkur á portúgölsku fyrir Alþjóðahús og sem rekstrarstjóri og þjálfari hjá Bogfimisetrinu.

Hver eru þín helstu áhugamál ?
Hestarnir eru hluti af mínu lífi og er alveg yndislegt að geta átt þær stundir. Hestar hafa alltaf átt mjög stóran hlut í mínu lífi.
Bogfimi er alger ástríða og að kenna hana og stunda er eitthvað sem ég elska. Það er svo yndislegt að horfa á fólk læra og verða betra með hverjum degi. Að vinna við eitthvað sem maður elskar eru alger forréttindi. Það sem oft gerist þó er að maður hefur minni tíma í að æfa sjálfur.

Bakgrunnur íþróttum og heilsurækt ?
Sko mér fannst alveg gaman í fótbolta og körfu. En ég fann mig ekki í hópíþróttum. Ég prófaði fimleika en fannst það ekki eitthvað fyrir mig. Svo um 10 ára aldurinn fann ég mig í Karate. Við pabbi og litli bróðir stunduðum þetta saman til að byrja með en ég hélt áfram. Ég á meira að segja Íslandsmeistaratitil í Kumite og brons í Shotokan.
Svo hætti ég öllu eftir 15 eða 16 ára.
Ég er eins og margir, fer í átak, kaupi kort og mæti svo nokkrum sinnum. Það er rosa erfitt að vera þannig. En það er samt betra en að gera ekkert.
Í dag er auðvitað fjölskyldan númer eitt og geri ég allt til að börnin stundi íþróttir. Sú yngsta er í fimleikum 2x í viku og sundi 2x. Sú eldri er 4x í viku í körfu.
Bogfimina hef ég stundað núna í rúm 3 ár með fínum árangri. Ég byrjaði í sveigboga en fór meira í langboga. En nú er ég að einbeita mér mest á Trissuboga.

Hvaða tegund af heilsurækt stundar  þú?
Ég stunda bogfimi. Í bogfimi er mikið labb og svo er oft mikil þyngd dregin upp. Minn bogi er um 47 pund. Í hverri umferð (30 örvar) er gengið um 360m innanhúss en í hverri utanhúss (36 örvar) er um 1,4km.
En til að stunda keppni í bogfimi þarf að vera með ágætt þol til að vega á móti álagi.

Ég hita upp og teygi á hverjum degi með krökkunum mínum á æfingum. Ég reyni að ganga eins mikið og oft og ég get.

Hver var kveikjan að Bogfimisetrinu hver eru ykkar markmið næstu 5 árin ?

Eigendurnir byrjuðu í ÍFR þar sem var eini staðurinn sem bauð upp á bogfimi. Þeir vildu geta æft oftar. Það vantaði aðstöðu og tækifæri til þess og lögðu þeir því á ráðin. 9.nóv.2012 opnuðu þeir Bogfimisetrið. Aðal ástæðan var svo þeir gætu æft meira og oftar, og að fleiri gætu kynnst þessu sporti.

Er bogfimi fyrir alla, er þetta ekkert aðeins of sérhæft fyrir hinn almenna borgara?

Bogfimi er bara fyrir ALLA. Allir geta skotið af boga!
Handalausir, sjónlausir, litlir, stórir, feitir, mjóir, konur, karlar, börn, fullorðnir og eldri borgarar.
Bogfimi er stunduð á marga vegu. Það eru margar tegundir boga. En allir byrja á sama stað.
„Þetta er bogi og þetta er ör...“ Þetta eru upphafs orðin í kynningu okkar á bogfimi.
Bogfimi á að vera skemmtileg og við gerum okkar besta til þess að svo sé.

Hvaða aldursmörk setjið þið og hvað með öryggi er þetta ekkert hættulegt sport?
Það er ekkert aldurstakmark í bogfimi. Eina reglan varðandi aldur er að 14 ára og yngri verða að vera í fylgd fullorðinna.
Bogfimi er ein hættu minnsta íþrótt í heiminum. Það fyrsta sem alltaf er hugsað um í bogfimi er öryggi. Við leggjum alltaf áherslu á að öryggisreglum sé fylgt. Það er einmitt þess vegna sem við erum slysalaus í Bogfimisetrinu.
Í bogfimi eru álíka mörg slys og í borðtennis eða keilu.

Nefndu þrennt sem þú átt alltaf til í ísskápnum ?

Laktósfrí mjólk, íslenskt smjör og ostur

Hver er þinn uppáhalds matur & matsölustaður ?

Ég hef breyst svo mikið með hækkandi aldri og er farin að meta allskonar „skrýtinn“ mat. Fyrir tveimur árum þorði ég að smakka sushi og finnst það algert æði. Hér áður var það ítalskt, já takk og svo indverskur.
Fyrir ekki löngu fór ég á Apótekið og fékk mér tasting menu og varð ástfangin.
Ekki skemmir fyrir að einn af eigendunum er góður vinur og stundar bogfimi að fullu kappi.

Ert þú að lesa eitthvað þessa dagana og hver er besta bók sem þú hefur lesið ?

Ég er að lesa mikið af bogfimibókum þessa dagana og svo skólabókum.
Archery anatomy og core archery eru góðar bækur. Og gaman að eiga þær þar sem ég er bæði að læra sjúkraliðan og að þjálfa.
Besta bók.. bók sem gerði mikið fyrir mig á erfiðum tíma var Siddartha, eftir Herman Hesse.

Ef þú ætlar að „tríta“ þig sérlega vel hvað gerir þú ?

Fer út að borða eða kaupi eitthvað nýtt og flott bogadót.

Hvað segir þú við sjálfa þig þegar þú þarft að takast á við stórt/erfitt verkefni ?

„Þetta verður ekkert mál og bara gaman!“

Hvar sérð þú sjálfan þig fyrir þér eftir 5 ár?

Ég varla veit það. Ég varla veit með morgundaginn.
Ja, mig langar alla vega að hafa bætt við mig þjálfara reynslu.
Mig langar að keppa meira erlendis og er plan allavega að fara til Marrakech næsta vetur.
Jú og ég ætla vera búin með sjúkraliðann.
Ég sé fyrir mér að bogfimi verði orðin mun stærri og viðurkenndari hérlendis en núna.