Fara í efni

Sólveig Guðmundsdóttir burrito expert og framkvæmdastjóri Culiacan

Hún Sólveig er iðnhönnuður að mennt, burrito expert, 2ja barna móðir, sjómanns-kærasta og framkvæmdastjóri Culiacan.
Sólveig framkvæmdastjóri Culiacan
Sólveig framkvæmdastjóri Culiacan

Hún Sólveig er iðnhönnuður að mennt, burrito expert, 2ja barna móðir, sjómanns-kærasta og framkvæmdastjóri Culiacan.

“Ég elska hollan og góðan mat og hreyfingu, en ég elska líka rauðvín, osta og súkkulaði. Mitt endalausa verkefni er að ná þessu öllu í jafnvægi, þ.e mikið af hollu og mátulega lítið af hinu”

Byrjum á að forvitnast hvernig týpískur morgun er hjá þér ?

Vakna 6.50, ræsi liðið, eldahafragraut, smyr nesti, gef hundinum og kem stelpunum mínum í skóla og leikskóla.  Það gengur á ýmsu og alltaf óska ég að ég hefði undirbúið mig betur kvöldið áður.

Hvað áttu alltaf til í þínum ísskáp ?

Mjólk, smjör, ost, sýrðan rjóma, agúrku og tómata.

Hvers vegna þú fórst út í veitingarekstur ?

Mér fannst sárlega vanta skyndibitastað þar sem maður gæti borðað með góðri samvisku.  Svo er ég líka iðnhönnuður og hef mikinn áhuga á framleiðslu.  Þessi bransi snýst bara um fjöldaframleiðslu á hollum og góðum mat.

Hver var kveikja að því að þið ákváðuð að leggja áherslu á heilsurétti framar öðru ?

Það var alltaf stefnan frá upphafi.  Ég aðhyllist sjálf heilsusamlegum lífsstíl og myndi aldrei hafa áhuga á að reka djúpsteikingarfabrikku.  Ég hef borðað á Culiacan nánast daglega síðustu 10 ár og finnst alltaf jafn ótrúlegt að ég sé ekki búin að fá nóg af þessum mat. Held það hafi mest með ferska hráefnið að gera.  

Hvað segið þið um þann aukna kostnað sem fylgir því að bjóða upp á mikið af grænmeti og meiri hollustu ?

Það er vissulega dýrara að bjóða uppá mikið af ferskmeti og gera allt frá grunni. Þetta er samt það sem staðurinn stendur fyrir og kúnnarnir ganga að því vísu. Við finnum greinilegan mun á hugsanagangi fólks almennt um holla fæðu og það er virkilega skemmtilegt.

Hvað getur þú sagt okkur um þá hollustu rétti sem þið eruð með, hvaða réttir eru vinsælastir og hver er þinn uppáhaldsréttur ?

Culiacan er í grunninn með hollan mat.  Fólk er samt orðið hálfruglað í ríminu því það sem er óhollt í dag þykir kannski besta mál á morgun, samanber smjör ofl.

 Við höfum síðastliðin ár fengið ýmsa sérfræðinga í lið með okkur til að þróa rétti sem eru næringarfræðilega góðir fyrir mismunandi hópa.  

Fyrstur kom Hlauparinn, með næringarfræðingunum Fríðu Rún og Steinari B, næst voru svo Léttir réttir, fyrir fólk sem vill grennast.  

Svo komu Crossfit-rétturinn, Lágkolvetna-réttirnir, Boltarétturinn og svo nýjustu eru FIT réttirnir.

Ætli FIT-kjúklingasalatið sé ekki uppáhalds hjá mér í dag.  En það fer eftir því hvað maður er að leggja áherslu á hvað hentar manni.  Ég til dæmis borða oft Hlauparann á sumrin þegar ég er duglegri að hlaupa úti.  Núna er ég meira að lyfta og legg því áherslu á próteinríkan, hreinan mat.

Ég hef líka áhuga á að vita hvað þér finnst um skyndibita menningu okkar Íslendinga og í hvaða átt þú telur að hún sé að þróast ?

Mér finnst skyndibitamenningin hafa tekið stakkaskiptum síðustu 10 ár sem ég hef verið í þessum geira.  Í dag er svo margt hollt og gott í boði að maður getur ekki notað tímaleysi sem afsökun fyrir að borða óhollt.  Ég fagna því að geta valið um grænmetisstaði, boozt, sushi og margt fleira.  Ég hef trú á að þetta eigi eftir að aukast enn meira því markaðurinn kallar einfaldlega á það.

Að lokum, hver er stefna ykkar varðandi upplýsingagjöf fyrir þá sem eru með fæðu ofnæmi og óþol ?

Við reynum að svara fólki sem spyr okkur útí matinn samviskusamlega.  Þar sem við gerum nánast allar sósur og salsa á staðnum þá vitum við vel innihaldið.

Við gætum reyndar bætt okkur og haft þetta skriflegt og aðgengilegt á staðnum. Ég set það á To-do listann.