Fara í efni

Kjartan Magnússon borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins gaf sér tíma í viðtal

“Ég er borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og sit í íþrótta- og tómstundaráði, borgarráði, skóla- og frístundaráði og stjórn Orkuveitunnar.”
Kjartan á hlaupum
Kjartan á hlaupum

“Ég er borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og sit í íþrótta- og tómstundaráði, borgarráði, skóla- og frístundaráði og stjórn Orkuveitunnar.”

Hvaða stefnumál tengd heilsu eru þið með á ykkar stefnuskrá?

Reykjavíkurborg þarf að vinna betur með íþróttafélögunum í því skyni að efla íþróttir í borginni, jafnt almenningsíþróttir sem og skipulagða íþróttastarfsemi fyrir börn og unglinga.

Við ætlum að hækka frístundastyrk barna í 40 þúsund krónur í því skyni að hvetja sem flest börn til þátttöku í skipulögðu íþrótta- og frístundastarfi. Við viljum samþætta skóla, frístundir og íþróttir mun betur en gert er í dag. Bæta þarf aðstæður fyrir frjálsan leik barna í öllum hverfum borgarinnar. Þá viljum við hraða uppbyggingu sundlaugar í Úlfarsárdal og leggjum áherslu á byggingu líkamsræktarstöðvar í tengslum við Breiðholtslaug.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur tvímælalaust verið sá flokkur sem mest frumkvæði hefur haft að verkefnum tengdum íþróttum og lýðheilsu í Reykjavík á undanförnum áratugum. Nefna má byggingu íþróttahúsa og sundlauga, lagningu göngustíga, hjólreiðastíga og síðast en ekki síst frístundakortið, sem komið var á fót árið 2007 undir forystu Sjálfstæðisflokksins.

Hvað finnst þér um að íslendingar séu orðin ein feitasta þjóðin á Norðurlöndum?

Þetta er grafalvarlegt mál. Í niðurstöðum nýrrar rannsóknar, sem birtist í læknablaðinu Lancet, kemur fram að íslenskar konur yfir tvítugu séu hinar feitustu í Vestur-Evrópu og íslenskir karlar eru næst feitastir. Þessi þróun er mikið áhyggjuefni og við henni þarf að bregðast með ákveðnum hætti, m.a. með aukinni áherslu á íþróttastarf og lýðheilsu.

Getur þú svarað því hvenær það kemur yfirbyggður fótboltavöllur í Laugardaginn hjá Þrótti knattspyrnufélagi?

Engin ákvörðun hefur verið tekin um yfirbyggt knattspyrnuhús í Laugardal. Ég er í góðu sambandi við forystumenn Þróttar og höfum við lagt áherslu á að ræða leiðir til að bæta æfingasvæði félagsins sem og keppnisvöll og jafnvel tilfærslu hans. Einnig er brýnt að bæta aðstæður handknattleiksdeildar og tennisdeildar. Þegar nýtt íþróttahús rís í Úlfarsárdal mun Fram væntanlega flytja úr húsi sínu í Safamýri og þá skapast sóknarfæri til að bæta úr aðstöðumálum Þróttar.

Hvenær mun frjálsíþróttafólk í Reykjavík geta æft og keppt á sínum eigin velli?

Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagt áherslu á að bæta aðstæður til iðkunar frjálsra íþrótta í Reykjavík. Á kjörtímabilinu hefur flokkurinn t.d. flutt tillögur um að endurbætur verði gerðar á frjálsíþróttasvæði ÍR í Breiðholti og að aðstæður verði skapaðar til iðkunar frjálsra íþrótta í Vesturbænum.

Góð aðstaða er til frjálsíþróttaiðkunar á Laugardalsvelli og eru allir flokkar í borgarstjórn sammála um að það sé fjárhagslega hagkvæmt að samnýta hann áfram af frjálsíþróttafólki og knattspyrnumönnum. Sjálfsagt er að leita leiða til þess að frjálsíþróttafólk geti nýtt Laugardalsvöll betur en nú ef áhugi er fyrir hendi.

Hver er stefna þíns flokks/framboðs gagnvart þeim heilsufarslegu áhrifum sem hljótast geta af of miklum styrk brennisteinsvetnis í andrúmslofti eins og raunin er núna á nokkrum svæðum á höfuðborgarsvæðinu og hlýst af mengun frá Hellisheiðarvirkjun?

Útstreymi brennisteinsvetnis frá virkjunum Orkuveitu Reykjavíkur á Hengilssvæðinu er stærsta umhverfismálið, sem fyrirtækið glímir nú við í rekstri sínum. Á kjörtímabilinu hef ég lagt áherslu á að Orkuveitan vinni ötullega að því draga sem mest úr styrk þess brennisteinsvetnis sem kemur frá virkjununum og að slíkur árangur náist sem fyrst.

Hef ég m.a. lagt til að kannaðir verði sem flestir möguleikar á að nýta losunarefni frá Hellisheiðarvirkjun til framleiðslu með það að markmiði að draga sem mest úr mengun þaðan. Einnig hef ég lagt til að settir verði upp fleiri síritandi loftgæðamælistöðvar við íbúahverfi austast í borginni því skyni að bæta vöktun á styrk brennisteinsvetnis í andrúmsloftinu.

Hvað gerir þú til að halda þér í góðu formi?

Hreyfing er mér mjög mikilvæg og ég reyni að hreyfa mig daglega, t.d. með því að ganga, hjóla, skokka eða synda. Á sumrin finnst mér frábært að fara út á land í langar gönguferðir.

Spáir þú mikið í mataræðið?

Ég reyni að gera það en mætti gjarnan fara meira eftir þeim spekúlasjónum.

Ef þú værir beðinn um að gefa gott ráð til hóps af fólki, hvaða ráð væri það?

Eftirfarandi ráð var mér gefið fyrir löngu og það er enn í fullu gildi: ,,Sá sem hefur ekki tíma fyrir heilsuna í dag, hefur ekki heilsu fyrir tímann á morgun.”