Fara í efni

FRÍ YFIRHEYRSLA

Nafn: Helen Ólafsdóttir
Helen Ólafsdóttir hlaupari : 2:52:30
Helen Ólafsdóttir hlaupari : 2:52:30

Berlínarmaraþonið fór fram í lok september og tóku 77 Íslendingar þátt.  Ein af þeim var Helen Ólafsdóttir en hún hafnaði í 62. sæti.  Tími hennar var 3:05,44 klst og kemst sá árangur í hóp þeirra bestu sem náðst hafa í kvennaflokki í greininni.

Nafn: Helen Ólafsdóttir.

Gælunafn: Hella.

Íþróttagrein og besti árangur: Maraþon, 2:52:30 klst.

Þjálfari: Gauti Grétarsson.

Nám/starf: Sjóðstjóri hjá Stefni hf.

Af hverju valdir þú þetta nám/starf? Menntun mín og reynsla nýtist vel í þessu starfi.

Áhugamál utan íþróttarinnar: Skíði, golf, ferðalög og góður matur.

Hversu oft æfir þú á viku? 6 daga vikunnar.

Hver er lykillinn að góðum árangri? Heilbrigt líferni, vinnusemi og skýr markmið.

Hvað er það lengsta sem þú hefur hlaupið? 55 km í Laugavegs - ultramaraþoni.

Hvað hleypur þú hratt 3 km? Hljóp innanhúss í fyrra á 10:31,38 mín.

Hvernig er best fyrir nýliða að koma sér af stað í æfingum? Byrja rólega og auka álagið smátt og smátt.

Hvað ráðlegguru fólki sem vill hreyfa sig meira? Gera hreyfingu að lífsstíl en ekki hugsa hana sem eitthvert átak. Skipuleggja vikuna fyrirfram í hreyfingu út frá álagi í daglegu lífi og starfi.

Hvað eru algeng mistök hjá fólki við æfingar? Vanmetur mátt hvíldarinnar.

Ertu almennt meðvituð/ur um matarræðið? Já, en má samt bæta mig á þessu sviði.

Hvað ráðlegguru fólki sem vill bæta matarræðið? Skrifa niður það sem það borðar, þannig sést svart á hvítu hvað það er sem þú ert að gera vel og hvað þarf að bæta.

Hver eru erfiðistu meiðsli sem þú hefur orðið fyrir? Plantar Fascities á báðum fótum, átti erfitt með gang á tímabili.

Hvað gerir þú til að koma í veg fyrir meiðsli? Reyni að stilla álag á æfingum rétt, stunda krossþjálfun með hlaupunum, gæta vel að þeim þáttum sem stuðla að góðri endurheimt og muna að teygja og borða vel á eftir æfingar.

Hvað gerir þú annað utan venjulegra æfinga til að ná árangri í greininni þinni? Finnst gaman að lesa mér til um þjálffræði og hvað hefur reynst öðrum maraþonhlaupurum vel. Gott að nota dáleiðslu og andlega íhugun til að ná góðri slökun.

Hver er erfiðasta mótherjinn á ferlinum? Yfirleitt er það maður sjálfur þegar upp er staðið.

Hver er besti samherjinn? Get ekki gert upp á milli æfingafélaganna.

Hver er fyrirmynd þín? Lít upp til margra en fyrirmyndir mínar í hlaupunum eru kjarnakonurnar Martha Ernstdóttir, Kara Goucher og Shalane Flanagan.

 

Hver er besti íþróttamaður allra tíma? Michael Phelps.

Hverjir eru styrktaraðilarnir þínir? Adidas, Oakley, SQUEEZY Sports nutrition.

Skemmtileg saga/uppákoma: Upphaf langhlauparaferils míns  má rekja til þess að haustið 2008 tapaði ég veðmáli við samstarfsfélaga minn sem var sannfærður um að íslenska handboltalandsliðið kæmist í úrslitaleikinn á Ólympíuleikunum í Peking. Allir þekkja hvernig það ævintýri endaði og ég varð því að viðurkenna ósigur minn í þessu veðmáli okkar. Ég hafði lagt að veði að breyta skráningu minni í Reykjavíkurmaraþoni úr 10km í hálft maraþon ef Ísland kæmist í úrslitaleikinn. Þetta gerði ég og kláraði hlaupið en á þessum tímapunkti fannst mér 10km vera skelfilega löng vegalengd og aldrei hefði það hvarflað að mér að ég ætti eftir að leggja stund á maraþonhlaup í framtíðinni en vellíðanin var svo mikil eftir hlaupið að ég hef vart lagt langhlauparaskóna frá mér eftir þetta hlaup.