Fara í efni

Minni- Minnihlutahópur - NPA, Notendastýrð Persónuleg Aðstoð

Minni- Minnihlutahópur - NPA, Notendastýrð Persónuleg Aðstoð

Nú styttist í kosningar og þingflokkar velta fyrir sér hvaða málefnum þeir eigi að skreyta sig með, þ.e. þau sem eru líkleg til að tryggja sem mestan fjölda atkvæða.

Eitt málefni sem berst við að komast upp á yfirborðið er NPA eða Notendastýrð Persónuleg Aðstoð.

NPA snertir þó aðeins tiltölulega lítinn, afmarkaðan hóp af fólki með beinum hætti, og þar af leiðandi ekki mörg atkvæði samanborið við önnur mál. Því hefur NPA verið ýtt hliðar, trekk í trekk.

Innleiðing NPA hófst árið 2011, en þá fékk takmarkaður hópur fatlaðs fólks samning um NPA. Samingurinn um NPA tryggði þeim þá þjónustu sem þau þurftu, sem jafnframt gerði þeim kleift að losna úr böndum stofnanavæðingar, taka virkan þátt í samfélaginu til jafns við aðra og lifa sjálfstæðu lífi. Hinum, sem ekki fengu NPA samninga, var sagt að þau þyrftu að bíða uns “tilrauninni” lyki, sem átti að taka um fjögur ár.

Almennt var litið svo á að innleiðingin á NPA hafi heppnast nokkuð vel. NPA notendur voru ánægðir, innlögnum á heilbrigðisstofnunum fækkaði og álag á félagsþjónustuna minnkaði. Nú átti aðeins eftir að útfæra og koma í lög. En á þessu fjögurra ára innleiðingarferli hafði lítil sem engin vinna verið lögð í að móta endanlega umgjörð og útfærslu á NPA. Til marks um það má nefna að þegar þáverandi stjórn NPA miðstöðvarinnar mætti á fund ráðherra sem hafði þetta á sinni könnu, vissi ráðherrann ekki hvað NPA væri og vildi frekar ræða aðra hluti, eins og hvernig mætti fá öryrkja út á vinnumarkaðinn. Svarið við þeirri spurning var og er að sjálfsögðu NPA.

Athafnaleysið gerði það svo að verkum að lögfestingu á NPA var frestað um fimmta árið svo tími gæfist til að klára vinnuna. Svo var sama sagan að ári liðunu. Og enn á ný árið eftir það.

Alltaf benti ríkið á sveitarfélögin og sveitarfélögin á ríkið. Á alþingi bentu stjórnarþingmenn á stjórnarandstöðuna og stjórnarandstaðan á þingmeirihlutann.

Nú skortir aðeins herslumuninn til þess að klára þetta. Innanbúðarmenn hafa sagt að aðeins tveir dagar myndu duga og þá væri hægt að afgreiða NPA fyrir þinglok.

Nokkrar staðreyndir um NPA:

- Þingheimur samþykkti einróma að hefja innleiðingu á NPA.

- NPA er jafn mikilvægt fyrir þá sem það þurfa og gervifætur eru fyrir fótalausa.

- Samkvæmt niðurstöðum Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands er samfélagslegur ábati af NPA mun meiri en af hefðbundna þjónustukerfinu.

- Verkefnisstjórn um NPA skilaði af sér fullunninni tillögu að frumvarpi til laga um NPA og kynnti í nóvember árið 2016. Frumvarp um lögfestingu á NPA er þannig tilbúið í Velferðarráðuneytinu.

- Velferðarráð Reykjavíkurborgar hefur sent þingheimi áskorun um að lögfesta NPA, en borgin hefur lengi verið reiðubúin að hefja fjölgun samninga og hefur gert ráð fyrir því í sinni stefnumótun fyrir málaflokkinn.

- Ísland fullgilti nýverið Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem kveður meðal annars á um rétt fatlaðs fólks til jafnra tækifæra og persónulegrar aðstoðar. Lögfesting á NPA er þannig ekki lengur valkostur fyrir Íslensk stjórnvöld, heldur skuldbinding, ætli þau sér að standa við skuldbindingar sínar samkvæmt samningnum.

- Á næsta ári mun sérstök nefnd á vegum Sameinuðu þjóðanna framkvæma sína fyrstu úttekt á stöðu innleiðingarinnar á samningnum á Íslandi. Brýnt er að íslensk stjórnvöld hraði sinni vinnu við að aðlaga íslenska löggjöf að samningnum, m.a. með lögfestingu á NPA, ætli það sér að komast hjá átölum frá Sameinuðu þjóðunum.

NPA er þannig ekki lengur valkostur fyrir Íslensk stjórnvöld, heldur skuldbinding, ætli þau sér að standa við skuldbindingar sínar samkvæmt samningnum.

Höfundur greinar: 

Brandur Karlsson