Fara í efni

Hvað eru geðhvörf?

Íslensk tunga á marghátta lýsingu á skapi eða geði manna og dýra, sem lýsir því m.a. hvort lundin er létt, þung eða hvort sá sem um er rætt er blendinn í geði.Geðshræring er uppnám hugans. Skap eða geðblær getur einkennst af hækkuðu geðslagi eins og við depurð, þunglyndi eða sálarkvöl. Milli hækkaðs og lækkaðs geðslags er sagt að jafnaðargeð ríki. Sumir eru geðríkir, aðrir eru hæglyndir eða skaplitlir og enn aðrir einhvers staðar þar á milli.
Afar áhugaverð grein
Afar áhugaverð grein

Íslensk tunga á marghátta lýsingu á skapi eða geði manna og dýra, sem lýsir því m.a. hvort lundin er létt, þung eða hvort sá sem um er rætt er blendinn í geði.

Geðshræring er uppnám hugans. Skap eða geðblær getur einkennst af hækkuðu geðslagi eins og við depurð, þunglyndi eða sálarkvöl. Milli hækkaðs og lækkaðs geðslags er sagt að jafnaðargeð ríki. Sumir eru geðríkir, aðrir eru hæglyndir eða skaplitlir og enn aðrir einhvers staðar þar á milli.

Geðhvörf eða öðru nafni oflætis-þunglyndissjúkdómur (mainc-depressive) einkennist ýmist af geðhæðar- eða geðlægðartímabilum. Sjúkdómurinn hamlar getu til eðlilegra athafna í daglegu lífi, truflar dómgreind eða leiðir til ranghugmynda. Sjúklingar fá ýmist einkenni oflætis eða þunglyndis, eða eingöngu einkeni oflætis. Langur tími getur liðið á milli geðsveiflnna og á þeim tímabilum er einstaklingurinn eðlilegur á geði. Ef sjúklingurinn er án meðferðar má búast við 7-15 stórum sveiflum á meðalævi. Sumir veikjast þó aðeins einu sinni. Ólíkt þunglyndi sem getur skotið upp kollinum hvenær sem er, láta geðhvörf nær alltaf fyrst kræla á sér hjá ungu fólki.

Oftast líður mislangur tími á milli oflætis og þunglyndis. Þetta er einstaklingsbundið en einnig hafa lyfjameðferð og umhverfisaðstæður áhrif á þunga veikindanna og hversu lengi þau vara. Sjúkdómurinn er algengur meðal þeirra sem búa yfir frjóu og kraftmiklu ímyndunarafli, t.d. meðal framkvæmda- og listafólks. Í uppsveiflu sjúkdómsins fær fólk aukinn innblástur og kraft í sköpun sína en oft getur sá hugsanastormur feykt einstaklingum út yfir landamæri raunveruleikans.

Sjálfsvígshlutfall einstaklinga með geðhvörf er hátt, eða um 18% og er það einn af niðurrífandi og neikvæðum þáttum sjúkdómsins.

Mismunandi undirflokkar

Nú til dags er geðhvörfum skipt í fjóra flokka, samkvæmt DSM greiningarkerfinu. Geðhvörf I, geðhvörf II, geðhvörf III (geðhæð af völdum lyfja) og hverfilyndi. Að lokum er til nokkuð sem kallast "mixed states" en það er fremur lýsing en ákveðin greining.

Geðhvörf I er það form geðhvarfa sem einkennist af gríðarlegum oflætissveiflum sem oft standa lengi yfir, en þunglyndissveiflurnar eru ekki mjög djúpar. Fólk með þessa tegund af geðhvörfum setur hvað mestan svip á sjúkdóminn og gefur honum andlit. Þetta eru einstaklingarnir sem í oflætinu eru ósigrandi og búa yfir óþrjótandi orku til að sigra heiminn. Þeir svífa um í hæðstu hæðum oflætisins. Iðulega þarf að leggja fólk með geðhvörf I inn á geðdeildir í langan tíma til að ná því niður úr oflætinu, sem oft hefur varað lengi og hefur jafnvel valdið líkamlegu tjóni.

Geðhvörf II er annað birtingarform á geðhvörfum sem lýsir sér með meira og langvarandi þunglyndi en hjá fólki með geðhvörf I. Inn á milli upplifa þessir einstaklingar stutt og oft væg oflætistímabil. Tímabil sem vara 3-15 daga. Þetta fólk er oft ranglega greint taugaveiklað eða með persónuleikaröskun.

Geðhvörf III er svolítill jaðarhópur. Hér er um að ræða fólk sem er oft þunglynt og er á þunglyndislyfjum eða í rafmeðferð sem kemur því í oflætisástand. Stundum geta jafnvel steralyf eins og cortisone komið fólki upp í geðhæð eða oflæti. Einnig getur fólk sem er ranglega greint þunglynt og sett er á þunglyndislyf skotist upp í oflæti. Þessir einstaklingar eru flokkaðir með geðhvörf III.

Hverfilyndi (cyclothymia). Í þessum flokki eru þeir sem kallast "rapid cyclers". Þeir sem fá vægar og örar geðsveiflur. Þetta er fólkið sem fær oft frábærar hugmyndir, byrjar á stórum verkefnum af krafti en klárar þau aldrei. Fólkið sem þarf stöðugt að vera á ferðinni. Fólkið sem kemur geysimiklu í verk á skömmum tíma en dettur svo niður inn á milli, án þess þó nokkurn tíman að missa dómgreind eða upplifa slæmt þunglyndi eða sturlunarkennt oflæti. Þessir einstaklingar eru oft ranglega greindir með persónuleikatruflanir.

Blandað ástand (mixed states). Margir sérfræðingar lýsa þessum blönduðu geðhvörfum sem "örvæntingarfullum kvíða". Þunglyndi með einstaka hugarflugi oflætis inn á milli. Geðsveiflurnar eru svo örar að einkenni þeirra birtast með mjög skömmu millibili í hegðun. Ef sveiflurnar vara skemur en tvær vikur er viðkomandi í blönduðu ástandi.

Einkenni geðhvarfa

Einkenni oflætis

Geðslag hækkar og einstaklingurinn finnur fyrir mikilli líkamlegri og andlegri vellíðan. Hins vegar er þol fyrir áreiti lítið og getur mikil ánægja og gleði skyndilega breyst í æsing og reiði. Sjúklingurinn getur orðið yfirþyrmandi, átt erfitt með að hlusta á aðra og þola afskipti annara. Sjálfsstjórn minnkar og duldar hvatir koma fram til dæmis geta kynhvöt og árásarhvöt orðið sýnilegri. Sjúklingnum líður eins og hann eigi heiminn og að ekkert geti breytt hamingju hans. Svefnþörf minnkar og stundum er tilhlökkunin svo mikil að vakna að sjúklingurinn fær alls ekki fest svefn.

Eftir því sem líður á veikindin eykst bil á milli veruleika hans og raunveruleikans. Dagdraumar verða hluti af raunverulegum atburðum. Sjúklingurinn bókstaflega lifir í eigin hugarheimi þar sem allt snýst um að innstu vonir hans og þrár rætist. Sjúklingurinn er ofvirkur, dómgreind hans er brostinn og óraunhæf bjartsýni ríkir. Hugsanir eru hraðar, hann talar stöðugt, veður úr einu í annað og skeytir lítið um samhengi. Oft telur hann sig komast í beint samband við æðri máttarvöld, frægt fólk, fjölmiðla eða áhrifamenn.

Algengt er að sjúklingurinn tengi óskylda atburði við eigin persónu, t.d. geta fréttir í fjölmiðlum eða atburðarás í kvikmynd haft persónulegan boðskap eða tákn til hans. Honum getur einnig fundist einhverjir aðilar vera með samsæri gegn sér. Hvers kyns orðaleikir og ímynduð skilaboð eru algeng og er því ómögulegt að vita hvernig sjúklingurinn túlkar umhverfi sitt. Minnstu smáatriði geta leikið lykilhlutverk í einkatilveru sjúklingsins. Hann getur trúað því að náttúrulögmál taki ekki til hans, til dæmis haldið því fram að hann sé óháður þyngdarlögmálinu. Vegna ranghugmynda getur hann farið sér að voða með því að stökkva út úr bíl á ferð eða ganga út um glugga á háhýsi.

Sjúklingar í oflæti hafa iðulega háar hugmyndir um sjálfa sig. Þeir hleypa af stokkunum stórbrotnum verkefnum og eru mjög sannfærandi við að fá annað fólk í lið með sér. Fæst þessara verkefna komast þó í höfn vegna veikinda sjúklingsins. Oflætið getur einnig haft skaðleg áhrif á félagslega stöðu einstaklingsins, meðal annars valdið erfiðleikum í hjónabandi og fjölskyldulífi, valdið fjárhagstjóni og leitt til ofneyslu áfengis og annara vímuefna.

Oflæti í langan tíma getur leitt til þess að sjúklingurinn örmagnist sem getur verið lífshættulegt. Án meðferðar getur oflæti varað í nokkrar vikur eða mánuði. Eftir að það gengur niður getur sjúklingurinn náð eðlilegu ástandi en hætta er á að hann sveiflist aftur upp eða taki dýfu niður á við. Hjá sumum varir jafnvægisástandið í nokkrar vikur eða mánuði, en hjá öðrum geta liðið mörg ár þar til næsta stóra sveifla bærir á sér.

Oft getur reynst erfitt að koma sjúklingi í alvarlegu oflætisástandi á sjúkrahús. Ástæðan er einföld. Sjúklingnum líður vel í sínum hugmyndaheimi þar sem allt gengur honum í haginn og ekkert amar að. Viðkomandi á bágt með að átta sig á því að hann er veikur. Vellíðan og drift oflætis á vissu stigi má líkja við áhrif örvandi vímuefna.

Einkenni þunglyndis

Einkenni þunglyndis hjá geðhvarfasjúklingi er þau sömu og annara þunglyndissjúklinga. Hversu alvarlegt þunglyndið verður er breytilegt eftir einstaklingum, líkt og með oflætið. Algeng einkenni þunglyndisins eru meðal annars hugsanadeyfð, daprar hugsanir, sektarkennd, hryggð, kvíði, vanmat á eigin getu, framtaksleysi, skortur á lífskrafti, svartsýni og uppgjöf.

Sjúklingurinn dregur sig iðulega út úr félagslegum samskiptum, hann sinnir ekki áhugamálum og vinnan verður kvöl. Sumir verða hamlaðir í hreyfingum, segja fátt og svipmót þeirra lýsir skorti á tilfinningalegum viðbrögðum eða kvöl. Aðrir geta orðið órólegir og eirðarlausir, stöðugt á iði og núandi hendur sínar. Einbeiting þverr og minnið daprast.

Hugsanir snúast oft um dauðann, sjálfsvíg og annað þvíumlíkt. Minimáttarkennd og sektarkennd eru algengar og sjúklingurinn kennir sjálfum sér um ömurlegt ástand sitt. Í þessu ástandi fá sumir sjúklingar þá ranghugmynd að þeir séu haldnir einhverjum ólæknandi líkamlegum sjúkdómum, eða jafnvel trúa því að þeir séu orsök alls ills í fjölskyldu sinni eða þjóðfélaginu.

Líkamleg einkenni þunglyndis geta verið mörg. Í sumum tilfellum minnkar matarlyst sem leiðir til þyngdartaps. Í öðrum tilfellum leitar sjúklingurinn í mat og þyngist. Kynlífslöngun getur minnkað eða horfið. Tíðarblæðingar kvenna geta orðið óreglulegar eða stöðvast. Svefn raskast, sjúklingar sofa annað hvort mjög mikið eða lítið sem ekkert. Dægursveiflur eru algengar, til dæmis getur þunglyndið oft verið verst á morgnana en lagast er líður á daginn og stundum er líðanin jafnvel orðin ásættanleg á kvöldin.

Hverjir fá geðhvörf?

Tíðni geðhvarfa hefur verið rannsökuð víða um heim. Samkvæmt þeim rannsóknum er hlutfall þeirra sem greinast með geðhvörf u.þ.b. 0,8-1,0%. Geðhvörf virðast vera jafn tíð meðal kvenna og karla. Sjúkdómurinn greinist oftast þegar fólk er á aldrinum 17-30 ára. Þó eru undantekningar frá þessu og einstaka aðilar upplifa geðhvörf á miðjum aldri og á eldri árum.

Geðhvörf hjá öldruðu fólki

Geðhvörf greinast ekki oft hjá öldruðu fólki. Geðhvörf greinast iðulega á unglingsárum eða snemma á þrítugsaldri. Þó kemur fyrir að fólk greinist með geðhvörf á miðjum aldri. Þótt það hafi lengst um verið talið afar sjaldgæft að geðhvörf greinist hjá öldruðu fólki hafa rannsóknir, sýnt fram á að það kunni að vera algengara en talið er.

Geðhvörf hjá börnum og unglingum

Einkenni geðhvarfa geta verið til staðar hjá börnum frá unga aldri. Það var þó ekki fyrr en nýlega að læknar fóru að greina börn með geðhvörf. Ef einkenni geðhvarfa greinast snemma hjá börnum eykur það líkurnar til þess að þau nái að öðlast jafnvægi, þroskast og byggja á sínum styrk þegar á unglingsárin líður. Rétt meðferð getur haft þau áhrif að sjúkdómurinn verði þeim ekki fjötur um fót.

Lengi hefur því verið haldið fram að stór hluti þeirra barna sem greind eru með athyglisbrest með ofvirkni (AMO), séu í raun að upplifa geðhvörf eða geðhvörf ásamt athyglisbrestinum og ofvirkninni.

Þegar á unglingsárin er komið taka geðhvörfin á sig þá mynd sem er algengust hjá fullorðnum. Eins og áður hefur verið minnst á er algengast að geðhvörf geri fyrst alvarlega vart við sig hjá unglingum. Þá er sjúkdómurinn að taka á sig þá mynd sem fylgir einstaklingnum út lífið. Ekki er óalgengt að unglingar fái sínar fyrstu stóru sveiflur á aldrinum 15 til 20 ára. Yfirleitt byrja strákar á að fara í oflæti en stúlkur í þunglyndi.

Fylgikvillar

Geðhvörf eru algengari meðal frjórra og framkvæmdasamra huga. Huga sem sveiflast á milli endamarka mannlegs litrófs og stundum út fyrir þau. Tengsl annara geðraskanna við geðhvörf eru ekki marktæk. Þó eru mælanleg tengsl milli geðhvarfa og áfengissýki. U.þ.b. 13% allra geðhvarfasjúklinga hafa einnig greinst með áfengissýki. Fylgni á milli geðhvarfa og sjálfsvíga er einnig óvenju há eða um 18%. 

Hvað veldur geðhvörfum?

Geðhvörf eins og vel flestir geðsjúkdómar orsakast af flóknu samspili erfða og umhverfis. Erfðaþáttur sjúkdómsins er sterkur og ekki er óalgengt að sjúkdómurinn liggi eins og rauður þráður í gegnum ákveðnar ættir. Sjúkdómurinn liggur oft niðri í nokkra ættliði en skýtur svo upp kollinum inn á milli.

Talið er að ójafnvægið sem veldur geðhvörfum stafi fyrst og fremst af ójafnvægi í rafeindaflutningum yfir frumhimnur í heila. Ójafnvægi í rafeindaflutningum orsakast, að talið er, af erfðagalla. Vísindamenn hafa ekki enn greint eitt ákveðið gen sem veldur sjúkdómnum, en slík uppgötvun gæti hjálpað að greina fólk í áhættuhópum. Ásamt því að bæta meðferð fyrir þá sem þegar hafa verið greindir. Það virðist aðeins spurning um hvenær "genið" finnst.

Einnig hefur efnafræði heilans verið mikið rannsökuð í tengslum við sjúkdóminn.

Umhverfisþættir hafa verið tengdir sjúkdómnum. Ekki er óalgengt að atburðir sem valda mikilli streitu komi sveiflum af stað, eða hjálpi til með að framkalla þær. Því má segja að erfðaþættir, líffræðilegir þættir, streita og persónuleiki séu allt þættir sem orsaka geðhvörf. Þessir þættir leika ólík og mismikilvæg hlutverk í orsök sjúkdómsins og verður samspil þeirra og orsakasamhengi sennilega seint skilið til fulls.

Greining

Þeir sem greina geðhvörf eru geðlæknar. Við greiningu eru beitt ýmsum aðferðum en fyrst og fremst byggist greiningin á viðtölum og innsæi geðlæknanna. Sjúkdómurinn getur oft verið sem úlfur í sauðargæru og verið undirliggjandi lengi áður en hann brýst fram á þann hátt að ekki er um að villast. Einnig getur greining tekið langan tíma vegna þess að geðlæknar þurfa að sjá skýrar sveiflur í báðar áttir sem oft taka ár að þróast. Greining byggist á skýrum geðsveiflum og er tegund sjúkdómsins ákvörðuð á eðli þeirra.

Hér fyrir neðan er lýst í meginatriðum hvernig sjúkdómsgreiningin er byggð á ástandi sjúklingsins, samkvæmt DMS greingarkerfinu:

Geðhvörf I , eitt oflætistímabil.

Sjúklingur hefur upplifað aðeins eitt oflætistímabil en ekkert þunglyndistímabil.

Geðhvörf I, síðasta sveifla: Vægt oflæti (hypomania).

·         Sjúklingur eins og er, eða fyrir stuttu síðan, í vægu oflæti (hypomaniu).

·         Sjúklingurinn hefur að minnsta kosti gengið í gegnum eitt oflætistímabil eða eitt tímabil af blönduðu ástandi(mixed states)

Geðhvörf I, síðasta sveifla: oflæti.

·         Sjúklingurinn eins og er, eða fyrir stuttu síðan, í oflæti

·         Sjúklingurinn hefur að minnsta kosti gengið í gegnum eitt tímabil þunglyndis, oflætis eða blandaðs ástands (mixed states).

Geðhvörf I, síðasta sveifla: blandað ástand (mixed states).

·         Sjúklingurinn eins og er, eða fyrir stuttu síðan, í blönduðu ástandi.

·         Sjúklingurinn hefur að minnsta kosti gengið í gegnum eitt tímabil þunglyndis, oflætis eða blandaðs ástands.

Geðhvörf II

·         Sjúklingurinn hefur sögu um eitt eða fleiri þunglyndistímabil og að minnsta kosti eitt tímabil af vægu oflæti.

·         Sjúklingurinn hefur aldrei upplifað oflæti eða blandað ástand.

Mjög mikilvægt er að greina geðhvörf í tíma svo að sjúkdómurinn fái ekki að sveifla sjúklingnum í mörg ár áður en greining fæst. Líf sjúklinga með geðhvörf getur ákvarðast af réttri greiningu og því fyrr sem sjúkdómurinn greinist því betra. Eftir greiningu getur sjúklingurinn tekist á við sjúkdóminn á ábyrgan hátt.

Meðferð

Meðferð sjúkdómsins ræðst af innri og ytri aðstæðum. Með innri aðstæðum er átt við geðástand sjúklingsins, hver sjúkdómseinkennin séu og hvort sjúklingurinn hafi innsæi og skilning á ástandi sínu. Með ytri aðstæðum er átt við félagslegan stuðning við sjúklinginn, fjölskyldu, vini og venslafólk. Ef sjúkdómseinkenni eru væg og sjúklingurinn hefur innsæi og vilja til samstarfs um meðferð getur hún farið fram í daglegu umhverfi hans. Skorti hins vegar innsæi og sjúkdómsmyndin einkennist af dómgreindarleysi og óábyrgum og varasömum athöfnum, verður ekki komist hjá innlögn á sjúkrahús og þarf jafnvel að beita lagalegum úrræðum um nauðungarvistun.

Nauðungarvistun er neyðaraðgerð sem beitt er þegar sjúklingurinn er talinn hættulegur sér og/eða öðrum. Hann hefur þá oft valdið slíku álagi í umhverfi sínu að stuðningur er þrotinn og frekari úrræði engin.

Markmið meðferðar er að kyrra geð og halda sjúkdómseinkennum niðri. Þegar sjúklingurinn hefur náð jafnvægi er leitast við að fyrirbyggja með lyfjum og félagslegum úrbótum að sjúkdómurinn taki sig upp aftur. Í bráðaveikindum eru notuð geðlyf sem sefa. Mikilvægt er að sjúklingurinn nái hvíld og svefni og er þeim markmiðum einnig náð með hjálp lyfja. Lyfin litíum og karbamazepín eru fyrirbyggjandi, en verkunarmáti þeirra er ekki þekktur til hlítar.

Litíummeðferð

Í áranna rás hafa geðhvörf valdið ógnvænlegu ástandi og oft birst í formi brjálæðislegrar sturlunar eða dauða. Í upphafi þessarar aldar voru ópíumdropar og kyrrilyf einu ráðin gegn oflæti og þunglyndi.

Um 1930 kom fram sú aðferð að halda sjúkdómnum niðri með raflostum, sú aðferð skilaði árangri en náði ekki að koma í veg fyrir að sjúkdómurinn tæki sig upp að nýju. Um 1950 varð umbylting í meðferð sjúkdómsins með tilkomu litíum salta og "neuroleptic" lyfja við oflætiseinkennum og "tricyclic antidepressant" lyfja við þunglyndiseinkennum.

Árið 1949 komst ástralskur geðlæknir, John Cade, að lækningamætti litíums og næsta áratug voru tilgátur hans um þetta frumefni skoðaðar, prófaðar og sannfærðar. Samt sem áður var ekki farið að nota litíum á Vesturlöndum fyrr en upp úr 1970.

Í dag við upphaf 21. aldar eru öruggar sannanir fyrir fyrirbyggjandi áhrifum litíum á sveiflur hjá geðhvarfasjúklingum. Á helming þeirra sjúklinga sem taka litíum verkar það vel á meðan hinn helmingurinn svarar meðferðinni illa eða alls ekki. Hjá geðhvarfasjúkum virðist litíum vera jafn mikilvægt til þess að halda niðri oflætissveiflum og þunglyndissveiflum. Þó það sé ekki enn ljóst hvernig lyfið verkar á heilann, kemur það líklega í staðinn fyrir natríum og kalíum þegar rafeindir ferðast yfir frumuhimnuna, þannig hafandi áhrif á jafnvægi boðefnaviðtaka í miðtaugakerfinu. Með því hægir lyfið á umpólun tauga í heilanum og hefur áhrif á boðefnaviðtaka í heilafrumum.

Frá því lyfið kom fyrst til sögunnar í geðlækningum fyrir 50 árum hefur notkun þess við geðhvörfum og þunglyndi aukist og orðið viðurkennd hvarvetna í heiminum. Þó að mælt sé með reglulegri blóðmælingu, þar sem magn litíums í blóði er mælt vegna mögulegra lifraskemmda hjá sjúklingum í meðferð, hafa engar vísindalegar sannanir verið færðar fyrir því að langtímameðferð valdi lifrarskemmdum. Litíum er hvorki örvandi né sefandi.

Batahorfur

Batahorfur einstaklinga sem greinst hafa með geðhvörf eru nokkuð góðar. Lyfjameðferð miðast við að fyrirbyggja frjóar en lífshættulegar sveiflur. Litíummeðferð er meðferð sem geðhvarfasjúklingar verða að taka sem meðferð fyrir lífstíð.

Með ábyrgum lífsháttum, reglulegu mataræði, reglulegum svefni, heilbrigðum tilfinninga- og félagstengslum, varfærni í áfengisneyslu og ábyrgri lyfjameðferð nær fólk með geðhvörf að halda sér í góðu formi. Þegar jafnvægi er náð eru þessir einstakilingar oftast nýtir og framkvæmdasamir þjóðfélagsþegnar sem leggja sitt að mörkum til samfélagsins.

Einstaklingar sem þurfa samt sem áður að passa sig vel og vera meðvitaðir um að þeirra lífstaktur er aðeins öðruvísi en annarra. Í þessum hópi má oft finna helstu og mestu snillinga okkar tíma á sviðum lista og framkvæmda.

Hvert er hægt að leita og hvað geta aðstandendur gert?

Hvert á að leita?

Hjálp fyrir fólk með geðhvörf er að finna á geðdeildum Landsspítala (bráðamóttöku s. 560-1680). Mikilvægt er að þeir sem hafa fengið greiningu haldi sig við það að hitta geðlækninn sinn reglulega. Einnig má benda á frjáls félagasamtök geðsjúklinga, Geðhjálp (570-1700). Þar er starfræktur sjálfshjálparhópur sem hittist í húsnæði Geðhjálpar að Túngötu 7 öll fimmtudagskvöld kl. 21:00. Slíkir hópar geta oft hjálpað fólki að takast á við lífið eftir greiningu og þegar haldið er út í lífið á ný eftir erfið veikindi.

Hjálp frá aðstandendum

Alvarleg veikindi hafa alltaf áhrif á fjölskyldu, vini og kunningja. Fjölskylda sjúklings kann að upplifa minnimáttarkennd, vanmátt og skömm gagnvart öðru fólki, jafnvel höfnunartilfinningu. Sjúkdómurinn veldur auknu álagi á heimilislífið og auknum áhyggjum. Þetta ásamt mörgu öðru er ástæða þess að fjölskylda sjúklingsins ætti að leita sér faglegrar hjálpar til þess að skilja betur eðli og hegðun sjúkdómsins. Sú hjálp auðveldar glímuna við sjúkdóminn og afleiðingar hans.

Aðstandendur, haldið ykkur við raunveruleikann er þið leiðbeinið sjúklingi í veikindum. Eftir veikindin skuluð þið halda eins eðlilegum samskiptum og mögulegt er við sjúklinginn og forðast að vera stöðugt að minnast á veikindi hans. Fylgist með hvort sjúklingurinn fari eftir leiðbeiningum læknis. Nauðsynlegt er að hvetja hann til að fylgja meðferðinni. Látið lækni strax vita ef þið verðið vör við einhverjar alvarlegar skapsveiflur eða ójafnvægi í framkomu sjúklings. Það kann að benda til þess að sjúklingurinn sé að veikjast þrátt fyrir lyfjatöku.

Hvetjið sjúkling til að taka sér fyrir hendur viðfangsefni sem auðvelda honum að komast aftur inn í raunveruleikann. Hrósið sjúklingi að verðleikum og látið hann vita að ykkur er annt um hann. Það eykur sjálfstraust og sjálfsvirðingu en hvort tveggja getur verið í lágmarki eftir veikindi.

Komið fram við sjúkling af virðingu. Forðist að ásaka hann fyrir ástand hans. Bíðið með að ræða viðkvæm mál þar til sjúklingur hefur náð sér að fullu. Forðist umræður sem gætu dregið úr sjálfstrausti og sjálfsvirðingu sjúklings.

Heimildir: persona.is