Fara í efni

Svefnlyfjanotkun á Íslandi

Svefnlyfjanotkun hefur lengi verið mest á Íslandi í samanburði við hin Norðurlöndin. Það land sem kemur næst í sölu er Svíþjóð með 71% sölu miðað við Ísland (sjá skýrslu Nomesco 2014).
Svefnlyfjanotkun á Íslandi

Svefnlyfjanotkun hefur lengi verið mest á Íslandi í samanburði við hin Norðurlöndin. Það land sem kemur næst í sölu er Svíþjóð með 71%  sölu miðað við Ísland (sjá skýrslu Nomesco 2014).

Mesta notkun svefnlyfja á Íslandi er í flokknum Benzódíazepínskyld lyf (N05CF) en þar eru lyf eins og zópíklón (Imovane, Zopiclone Actavis, Zopiklon Mylan) og zolpídem (Stilnoct, Zolpidem Mylan, Zovand).

Frá 2012 til 2014 hefur dregið úr notkun þessara lyfja á Íslandi um 5,2% meðal karla og 5,5% meðal kvenna en fleiri konur nota að jafnaði lyfin. Notkun endurspeglar að einhverju leyti fjölda notenda en á Íslandi eru talsvert fleiri notendur miðað við t.d. Noreg.

Það er umhugsunarvert að notkun Benzódíazepínskyldra lyfja skuli vera mun meiri hér á landi en á hinum Norðurlöndunum. Eitt af því sem gæti spilað inn í sölu lyfjanna er verð en munur á töfluverði á zópíklóni (Imovane) í mismunandi pakkningum er verulegur.

Miðað við lyfjaverðskrá frá 2012 kostar 10 töflu pakkning  um 1310 krónur (131 kr. taflan) en 30 stykkja pakkning kostar um 1260 kr. (42 kr. taflan).

Engin almenn greiðsluþátttaka er fyrir svefnlyf af hálfu Sjúkratrygginga Íslands og því er hagur sjúklinga eingöngu háður verði úr apótekum og þar með viðmiðunarverðskrá.

Þessi mikli verðmunur á pakkningum veldur því að mun meira er selt af 30 stykkja pakkningum sem er á margan hátt óeðlilegt miðað við það að lyfið er ekki ætlað til langvarandi notkunar.

Eins og sést á grafinu hér að neðan er lang mest ávísað af 30 stykkja pakkningum og má álykta sem svo að verð á töflum í ólíkum pakkningum hafi þar áhrif.

Aðeins hefur dregið úr ávísuðu magni zópíklón en það má líklega rekja til tilkomu aðgangs lækna að lyfjagagnagrunni árið 2012, sameiningu sjúkraskráa og aðgerða í eftirliti með lyfjaávísunum.

Í sérlyfjaskrá segir um zópíklón (þ.m.t. Imovane); „Meðferðin á ekki að vara lengur en í 2-4 vikur“ og því er bagalegt að flestar ávísanir lyfsins séu miðaðar við 30 daga skammt. Reyndar er það þannig að margir eru að nota lyfið viðvarandi sem er á skjön við leiðbeiningar í sérlyfjaskrá og aðrar klíniskar leiðbeiningar.

Undir eðlilegum kringumstæðum ættu flestar ávísanir að vera af 10 stykkja pakkningum vegna þess að sérlyfjaskrá segir að meðferðin eigi að vera eins stutt og hægt er en margir læknar segja frá því að þeir komi til móts við sjúklinga með því að ávísa stærri pakkningum vegna þess að það er hagkvæmara fyrir sjúklinginn.

Gagnrýna má ákvörðun lækna að ávísa umfram það sem talið er eðlilegt samkvæmt sérlyfjaskrá en hagkvæmnisjónarmið vegna mögulegra endurtekinna ábendinga koma á móti. Það leiðir hins vegar til þess að fólk situr uppi með lyf heima hjá sér sem er annað vandamál. Eðlilegast væri að læknar væru ekki settir í þá stöðu að semja við sjúklinga um ávísanir ávanabindandi lyfja eftir því hvað þau kosta.  

Lyfið í þessum flokki sem mest er notað er zópíklón og á markaði eru tveir styrkleikar 7,5 og 5 mg. Um 99% af heildarnotkun lyfsins eru í 7,5 mg styrkleika en á það hefur verið bent, m.a. af FDA (Matvæla- og lyfjastofnun Bandaríkjanna), að þessi skammtur sé sennilega of stór fyrir flesta. Heppilegra væri að nota 5 mg töflu eða hálfa 7,5 mg töflu.

Svefnlyf eru ekki einu ávanabindandi lyfin með ólíkt töfluverð eftir stærð pakkninga. Á Íslandi er notkun svefnlyfja, verkjalyfja, róandi- og kvíðastillandi lyfja og þunglyndislyfja sú mesta á Norðurlöndunum.

Lyfjateymi Embættis landlæknis hefur þegar skilað inn tillögum um breytt viðmiðunarverð til að bæta ávísanir ávanabindandi lyfja. Til að sporna við óhóflegum ávísunum þessara lyfja er það tillaga teymisins að töfluverð sem flestra ávanabindandi lyfja verði því sem næst óháð pakkningastærð.

Fyrir hönd Embættis landlæknis

Ólafur B. Einarsson sérfræðingur
Lárus Steinþór Guðmundusson lyfjafræðingur
Magnús Jóhannsson læknir

Sjá má frekari upplýsingar HÉR á síðu landlæknis.