Fara í efni

Staðfest að um nóróveirusýkingu sé að ræða

Staðfest að um nóróveirusýkingu sé að ræða

Hópsýking af völdum nóróveiru braust út í gær, fimmtudaginn 10. ágúst sl., á meðal erlendra skáta sem dvöldust í búðum á Úlfljótsvatni.

Af 175 skátum veiktust 63 með uppköstum, magakrömpum og niðurgangi. Fyrsta tilfellið greindist fyrir hádegi á fimmtudag og fór þeim fjölgandi þegar á daginn leið og fram á nótt. 

Tveimur dögum áður en hópsýkingin braust út mun einn skáti hafa veikst af iðrasýkingu.

Almannavarnir í samráði við sóttvarnalækni, Heilbrigðisstofnun Suðurlands og Rauða krossinn tóku þá ákvörðun að koma upp fjöldahjálparstöð í Grunnskólanum í Hveragerði til að veita skátunum skjól og aðhlynningu. Nokkrir skátar leituðu til bráðamóttöku Heilbrigðisstofnunar Suðurlands og fengu þar aðhlynningu. Enginn hefur þurft á innlögn á sjúkrahús að halda. Heilbrigðiseftirlit Suðurlands kannar aðstæður í búðunum við Úlfljótsvatn.

Veirufræðideild Landspítalans hefur staðfest að um nóróveirusýkingu sé að ræða. Sýkingin sem er bráðsmitandi með uppköstum og saurmengun getur borist með menguðu vatni og matvælum. Meðgöngutími sjúkdómsins er 1-2 dagar og veikindin standa yfir í 1-2 daga. Gera má ráð fyrir að viðkomandi geti smitað í 2 daga eftir að einkenni ganga yfir.  Frekari upplýsingar um nóróveiru, smitleiðir og meðferð.  

Búast má við að hinir sýktu nái sér fljótlega og geti snúið til síns heima.

Aðgerðastjórn viðbragðsaðila, staðsett á Selfossi fylgir málinu eftir. Ekki er talið að almenningi stafi hætta af þessari sýkingu.

Sóttvarnalæknir.

AF vef landlaeknir.is