Fara í efni

Nýjar opinberar ráðleggingar um mataræði

Embætti landlæknis gefur í dag út nýjar opinberar ráðleggingar um mataræði fyrir fullorðna og börn frá tveggja ára aldri. Í þeim eru engar stórstiga breytingar, frekar breyttar áherslur.
Nýjar opinberar ráðleggingar um mataræði

Embætti landlæknis gefur í dag út nýjar opinberar ráðleggingar um mataræði fyrir fullorðna og börn frá tveggja ára aldri. Í þeim eru engar stórstiga breytingar, frekar breyttar áherslur.

Nú er lögð rík áhersla á mataræðið í heild sinni og á mat úr jurtaríkinu sem er trefjaríkur frá náttúrunnar hendi, svo sem á grænmeti, ávextir, ber, heilkornavörur, baunir, linsur, hnetur og fræ. Meiri áhersla er á gæði fitu og kolvetna frekar en magn, það skiptir fyrst og fremst máli úr hvaða mat við fáum fituna og kolvetnin.

Einnig er mælt með að borða feitan og magran fisk, olíur, fituminni mjólkurvörur og kjöt og vatn til drykkjar.Hins vegar er mælt með að takmarka neyslu á unnum matvörum sem innihalda oft mikið af mettaðri fitu, sykri eða salti. Sem dæmi má nefna gosdrykki, sælgæti, kex, kökur, snakk, skyndibita og unnar kjötvörur. Með þessu mataræði er talin minni hætta á flestum fæðutengdum langvinnum sjúkdómum.

Nú er meiri áhersla en áður lögð á umhverfismál Ef ráðleggingunum er fylgt er það jákvætt fyrir umhverfið þar sem aukin neysla á jurtaafurðum og minni neysla dýraafurða hjálpar til við að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda. Að auki er mælt með að skipuleggja vel innkaup og eldamennsku og þannig má draga úr matarsóun og vernda umhverfið.

Ráðleggingarnar í hnotskurn:

  1. Fjölbreytt fæði í hæfilegu magni
  2. Ávextir og mikið af grænmeti. Borða 5 skammta af grænmeti og ávöxtum á dag eða minnst 500 g samtals. Safi telst ekki með í 5 á dag. Velja gjarnan gróft grænmeti eins og t.d. rótargrænmeti, spergilkál, hvítkál og blómkál.
  3. Heilkorn minnst tvisvar á dag. Æskilegt er að velja brauð og aðrar matvörur úr heilkorni.
  4. Fiskur tvisvar til þrisvar sinnum í viku. Mælt er með að ein af fiskmáltíðunum sé feitur fiskur.
  5. Kjöt í hófi. Velja lítið unnið, magurt kjöt. Takmarka neyslu á rauðu kjöti við 500 g á viku. Takmarka sérstaklega neyslu á unnum kjötvörum.
  6. Fituminni og hreinar mjólkurvörur. Ráðlagt er að velja sem oftast fituminni, ósykraðar eða lítið sykraðar mjólkurvörur án sætuefna. Hæfilegt magn eru 2 skammtar á dag.
  7. Mýkri og hollari fita. Feitur fiskur, lýsi, jurtaolíur, hnetur, fræ og lárperur eru góðar uppsprettur hollrar fitu.
  8. Minna salt. Velja lítið unnin matvæli, enda eru mikið unnin matvæli yfirleitt saltrík og takmarka notkun á salti við matargerð.
  9. Minni viðbættur sykur. Drekka lítið eða ekkert af gos- og svaladrykkjum og gæta hófs í neyslu á sælgæti, kökum, kexi og ís.
  10. Taka inn D-vítamín sem fæðubótarefni, annaðhvort lýsi eða D-vítamíntöflur.

Skoða nánar:

Fyrirlestrar á kynningarfundi 27. janúar 2015:

Elva Gísladóttir
Hólmfríður Þorgeirsdóttir
verkefnisstjórar næringa

Heimild: landlaeknir.is