Fara í efni

Eldhúsáhöld frá Kína undir smásjánni

Matvælastofnun mun auka eftirlit með eldhúsáhöldum frá Kína og Hong Kong frá og með 1. febrúar n.k. en þá taka gildi hertar reglur um innflutning þeirra.
Eldhúsáhöld frá Kína undir smásjánni

Matvælastofnun mun auka eftirlit með eldhúsáhöldum frá Kína og Hong Kong frá og með 1. febrúar n.k. en þá taka gildi hertar reglur um innflutning þeirra.

Þær reglur sem hér hafa verið innleiddar og aðgerðir Matvælastofnunar byggja á reglum Evrópusambandsins og er ætlað að koma í veg fyrir innflutning á eldhúsáhöldum sem losa óæskileg og mögulega skaðleg efni í matvæli.

Matvælastofnun vekur athygli á því að á því að frá 1. febrúar nk. munu eftirfarandi reglur gilda um innflutning á eldhúsáhöldum úr melamín og/eða fjölamíð plasti sem eru upprunnin í Kína eða Hong Kong, sbr. reglugerð ESB nr. 284/2011 (innleidd með reglugerð nr. 167/2014).

Ástæður þess að nauðsynlegt þykir að herða reglur og auka eftirlit er sú staðreynd að algengt er að fyrrnefnd eldhúsáhöld losi frá sér of mikið magn af óæskilegum efnum (eingreindum arómatískum amíðum eða formaldehýði) í matvæli og er reglunum ætlað að koma í veg fyrir að slíkar vörur komist á markað hérlendis.

Með „eldhúsáhöld úr melamín eða fjölamíð plasti“ er átt við alla hluti sem eru að öllu leyti eða að hluta úr viðkomandi plastefnum og er ætlað að komast í snertingu við matvæli. Þessar vörur falla í tollflokk nr. 3924.1000; Borðbúnaður og eldhúsbúnaður úr plasti.

https://vefskil.tollur.is/tollalinan/tav/

Allar sendingar sem innihalda eldhúsáhöld úr fyrrnefndum plastefnum og koma frá Kína, Hong Kong eða öðrum þriðju ríkjum og eru uppunnar í Kína eða Hong Kong fara í sérstakt eftirlit og innihald sendingarinnar fer ekki á markað hérlendis fyrr en að loknu eftirliti og samþykki af hálfu Matvælastofnunar. Innflytjendur þurfa að tilkynna Matvælastofnun um komu sendinga sem innihalda fyrrnefndar vörur eigi síðar en 2 virkum dögum fyrir komu þeirra til landsins. Rafrænt eyðublað til að senda tilkynningar til Matvælastofnunar verður brátt gert aðgengilegt í gegnum Þjónustugátt stofnunarinnar.

Eyðublaðið sem fyllt er út í þjónustugátt er í senn bæði tilkynning til Matvælastofnunar um komu sendingarinnar og yfirlýsing um að vörur í sendingunni losi ekki efni yfir hámarksgildum. Með eyðublaðinu þurfa að fylgja rannsóknaniðurstöður sem staðfesta slíkt. Mikilvægt er að eyðublaðið sé vandlega útfyllt og að nauðsynleg gögn (rannsóknaniðurstöður) séu send með. Ef innflytjendur láta hjá líða að senda gögn með sendingum sem sýna fram á skaðleysi fyrrnefndra eldhúsáhalda getur Matvælastofnun ekki veitt samþykki sitt fyrir innflutningnum og ekki mun reynast mögulegt að koma sendingunni á markað.

Eftirlit Matvælastofnunar fer þannig fram að framlögð skjöl (yfirlýsing um samræmi og rannsóknaniðurstöður) verða skoðuð vegna allra sendinga með fyrrnefndum vörum. Jafnframt mun stofnunin taka sýni til staðfestingar af 10% allra slíkra sendinga.

  • Eldhúsáhöld úr fjölamíð plasti mega ekki losa frá sér eingrend arómatísk amíð í matvæli í mælanlegu magni og því skal heildar magn þeirra vera undir 0,01 mg/kg, sem eru greiningarmörk.
  • Eldhúsáhöld úr melamíni mega ekki losa í matvæli formaldehýð í meira magni en 15 mg/kg.

Innflytjandi greiðir kostnað vegna skjalaskoðunar á þeim gögnum sem þurfa að fylgja sendingum og kostnað vegna sýnatöku og greininga á sýnum. Kostnaður vegna skjalaskoðunar og við sýnatöku er samkvæmt gjaldskrá Matvælastofnunar, en áætlaður kostnaður vegna greininga á sýnum er um 80.000-94.000 kr. fyrir fjölamíð sýni og 70.000-82.000 kr. fyrir melamín sýni. Kostnaður við greiningar er við efri mörkin í þeim tilfellum sem sýni greinist yfir mörkum. Sýnin verða greind á rannsóknarstofu Fødevarestyrelsen (danska matvælastofnunin), sem einnig greinir öll samskonar sýni vegna eftirlits þar í landi ásamt sýnum frá Svíþjóð.

Nánari upplýsingar veitir inn-og útflutningsskrifstofa Matvælastofnunar: innflutningur@mast.is.

Fengið af vef mast.is