Fara í efni

Á annað þúsund manns bíða endurhæfingar á Reykjalundi

300 milljón króna niðurskurður frá hruni.
Á annað þúsund manns bíða endurhæfingar á Reykjalundi

300 milljón króna niðurskurður frá hruni.

Fréttablaðið hefur nýlega fjallað um eftirspurn eftir þjónustu á endurhæfingarmiðstöð SÍBS á Reykjalundi og bent á að hún er miklum mun meiri en unnt er að sinna. Á Reykjalundi bíða nú tæplega ellefu hundruð manns eftir þjónustu og biðin er allt upp í eitt ár. Ef 300 milljóna króna niðurskurður frá hruni fengist bættur væri hægt að auka þjónustu Reykjalundar til muna.

Nýliðun endurhæfingalækna er of lítil

Þá hefur einnig verið bent á að nýliðun í hópi sérfræðinga í endurhæfingu er lítil. Um tuttugu læknar sem vinna eða hafa unnið við endurhæfingu á Íslandi eru skráðir félagar í Félagi íslenskra endurhæfingarlækna. Fimmtán þeirra eru með sérfræðiréttindi í endurhæfingar-lækningum, þar af eru um 10 starfandi. Endurhæfingarlæknar eru of fáir og meðalaldur þeirra er hár. Innan 10 ára verður um helmingur þeirra tuttugu og tveggja lækna sem vinna við endurhæfingu í dag hættur sökum aldurs. Nýliðun er lítil og einungis fjórir unglæknar eru í sérnámi í endurhæfingarlækningum. Nauðsynlegt er að læknanemar og unglæknar kynnist sérgreininni í námi og starfi, en á síðari árum hefur kennsla læknanema verið heldur minni en var fyrir tuttugu, þrjátíu árum. Þá var lögð meiri áhersla á endurhæfingu en er í dag.

Stefnumörkun í heilbrigðiskerfinu

Á málþingi sem haldið var í tengslum við aðalfund Landssambands Heilbrigðisstofnana í byrjun nóvember sl. var fjallað um þjónustu sérfræðilækna í íslenska heilbrigðiskerfinu. Voru þar m.a. fulltrúar frá Velferðarráðuneyti sem og frá Landlæknisembættinu. Nokkrir ræðumanna fjölluðu m.a. um nauðsyn þess að auka teymisvinnu í heilbrigðiskerfinu og fram kom að eitt af forgangsverkefnum Velferðarráðuneytisins er stefnumörkun í endurhæfingu. Þá var einnig á það bent að meiri áhersla þarf að vera á að bæta þjónustu við þá sem eru langveikir og styrkja sjúklinga í að lifa betra lífi með þráláta sjúkdóma.

Nýr þjónustusamningur gæti stytt biðlista

Að mati undirritaðs lofar þessi tónn frá forystufólki í heilbrigðisþjónustunni góðu fyrir Reykjalund nú þegar kemur að því að skrifa undir nýjan þjónustusamning við Reykjalund. Er vonandi að kaupandi þjónustunnar sjái hag sinn í því að efla endurhæfingarstarf á Reykjalundi og létta þannig á allt of löngum biðlistum eftir endurhæfingarþjónustu.

Magnús Ólason er framkvæmdastjóri lækninga á Reykjalundi og formaður Félags íslenskra endurhæfingarlækna.