Fara í efni

VERTU MEÐ – Gamlárshlaup ÍR verður haldið í 42. sinn á Gamlársdag

VERTU MEÐ – Gamlárshlaup ÍR verður haldið í 42. sinn á Gamlársdag

Einn helsti hlaupaviðburður vetrarins, Gamlárshlaup ÍR, verður haldið á Gamlársdag í 42. sinn en hlaupið, sem stækkar stöðugt að umfangi, er fastur liður í lífi margra hlaupara og hlaupahópa.

Auk Íslendinganna tekur fjöldi útlendinga þátt og fer fjöldi þeirra stöðugt vaxandi þó svo að aðstæður geti verið erfiðar, en það gleymist reyndar fljótt þegar komið er í mark, svo góðar eru móttökurnar og félagsskapurinn.

Frjálsíþróttadeild ÍR hefur veg og vanda að framkvæmdinni og ríkir mikil eftirvænting í þeirra röðum fyrir undirbúningnum og hlaupdeginum sjálfum, en ekki síst að sjá hversu margir mæta og hvort þátttökumetið verður slegið, sem er 1615 hlauparar, met sett árið 2016!

Í ár verður, auk hefðbundis 10 km hlaups, boðið upp á 3 km skemmtihlaup í annað sinn, en um 250 luku 3ja km hlaupinu í fyrra. Það þótti lukkast svo vel á síðasta ári að ákveðið var að halda því áfram og ná þannig til yngri hlauparanna og þeirra sem ekki fara 10 km ennþá, því ættu allir að geta tekið þátt, jafnt byrjendur sem börn.

Það sem gerir Gamlárshlaup ÍR öðruvísi og sérlega áhorfendavænt eru búningarnir sem margir hlauparanna klæðast en sér í lagi hjá hlaupahópunum er mikill metnaður lagður í sem frumstæðastan búning, hvort sem það er þægilegt að hlaupa í honum eða ekki. Það að vera með er því megin markmið flestra á Gamlársdag.

 

Gaman er að vísa í þessa frétt HÉR ma. viðtal við Ingu Dís Karlsdóttur hlaupstjóra Gamlárshlaupsins. 

Hlaupið er ræst með rakettuskoti kl. 12 frá Hörpunni á Gamlársdag og er skráning hafinn á hlaup.is

Hlaupstjóri hlaupsins, Inga Dís Karlsdóttir, veitir frekari upplýsingar ef þörf er á í síma 695 4460. Frekari upplýsingar er jafnframt að finna á http://ir.is/gamlarshlaup/

Bestu kveðjur,

fh. Frjálsíþróttadeildar ÍR

Flestar myndir teknar af Birki Jónssyni.